Heracleum mantegazzianum
Bjarnarkló er af ættkvísl risahvanna og er stór, fjölær planta af sveipjurtaætt.
Plantan viðheldur sér með öflugri rót en dreifir sér með með fræjum. Hver planta getur þroskað gífurlegt magn fræja.
Bjarnarkló er ekki eingöngu vistfræðilegt vandamál heldur er hún einnig ógn við heilsu fólks.
Bjarnarkló er mjög hávaxin planta eða frá 2 metrum en getur orðið allt að 3 metrar á hæð, oft með sterka, beiska lykt.
Stöngullinn er loðinn og holur með fjólubláa flekki en hann getur orðið allt frá 5 til 10 cm þykkur þar sem hann er þykkastur. Blöðin eru þrífingruð eða fjöðruð, gróftennt með fjólublá slíður. Blöðin minna nokkuð á lauf hlynsins. Blómsveipirnir eru venjulega flatir eða lítið kúptir um 25-60 cm breiðir.
Fræ þroskast á haustin og falla að hausti og vetri.
Bjarnarkló sem sleppur út í náttúruna getur dreifst á stór svæði í náttúrunni og ógnar líffræðilegum fjölbreytileika og takmarkar útivist.
Bjarnarkló ógnar einnig heilsu fólks. Plöntusafinn inniheldur eitruð efnasambönd sem virkjast í sólarljósi og geta valdið mjög alvarlegum og sársaukafullum bruna á húð og skilur yfirleitt eftir sig varanleg ör.
Bjarnarkló dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika náttúrunnar og landslagsins. Hún dreifist hratt og getur myndað stórar breiður sem hamla vexti annarra plantna.
Hún breytir einnig næringarframboði í jarðveginum sem gerir innlendum plöntum sem fyrir eru erfitt uppdráttar.
Á stórum svæðum sem bjarnarkló nær að dreifa úr sér er einnig hætta á jarðvegseyðingu.
Bjarnarkló getur hamlað útivist á eignalóðum og gæti rýrt verðgildi eigna.
Bjarnarkló getur fljótt myndað stóran hnapp af hávöxnum plöntum sem veita öðrum plöntum í garðinum samkeppni um pláss og sólarljós. Því lengur sem útbreiðsla bjarnarklóar hefur verið óhindruð, því erfiðari er að eyða plöntunni.
Bjarnarkló inniheldur ljósvirka efnið fúranókúmarín. Efnið er í safa plöntunnar og öll snerting við plöntuna getur valdið alvarlegum húðmeinum.
Plöntusafi bjarnarklóar, og annarra risahvanna, ásamt sólarljósi veldur alvarlegum bruna á húð.
Húð sem skaðast af völdum plöntusafans getur verið viðkvæm fyrir sólarljósi í mjög langan tíma eftirbrunann og slæm ör myndast.
Athugið! Nauðsynlegt að klæðast hlífðarfatnaði ef eitthvað á að eiga við bjarnarklóna.
Bjarnarklóin er nokkuð dreifð um Suðurlandið.
Plantan dreifir sér með fræjum sem finnast í aðfluttum jarðvegi, ferðast með vindi, með vatni og síðast en ekki síst með mannfólki.
Kjöraðstæður bjarnarklóar eru meðfram lækjum, vegköntum, í rökum engjum og húsagörðum.
Uppruna bjarnarklóarinnar má rekja til Rússlands og Georgíu, nánar tiltekið Vestur-Kákasusfjalla.
Bjarnarklóin var upprunalega flutt til Íslands sem skrautplanta í garða á síðustu öld.
Bjarnarkló er á lista um ágengar tegundir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Bjarnarkló er skráð sem ágeng framandi tegund í ESB sem þýðir að innan ESB skal ekki hafa bjarnarkló í heimilisgörðum og ekki dreifa fræjum eða plöntuhlutum.
Sveitarfélög á Íslandi hafa mörg hver séð um eyðingu bjarnarklóar til að koma í veg fyrir skaða af völdum plöntunnar.
Samkvæmt reglugerð 583 frá 2000 er bannað að flytja inn risahvannir.
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfisraduneyti/nr/4443
Að útrýma bjarnarkló krefst tíma og þolinmæði. Mælt er með að láta kunnáttufólk um eyðinguna til að koma í veg fyrir skaða.
Áður en hafist er handa við útrýmingu bjarnarklóar skal gæta þess að vera í viðeigandi hlífðarfatnaði til að koma í veg fyrir bruna af völdum safa plöntunnar. Gærið þess að vera í fötum sem hylja líkaman. Nauðsynlegt er að vera í hönskum og passa að ekki sem op á milli hlífðarfatnaðar og hanska. Nota skal hlífðargleraugu til að koma í veg fyrir skaða á augum.
Hægt er að losa sig auðveldlega við smáplöntur með því að draga þær upp úr jarðveginum ef hann er rakur. Plönturnar og sérstaklega rætur þeirra skal eyðileggja með því að þurrka plöntuleyfarnar eða fara með þær í urðun alls ekki í lífrænan úrgang.
Að skera niður bjarnarkló er mjög góð leið til að fjarlægja plöntuna. Skerið stilkinn með stunguskóflu nokkrum cm fyrir neðan yfirborð jarðvegsins, þ.e.a.s. á mörkum stilks og rótar. Besti tíminn til að til að skera plöntuna niður er snemma árs ef möguleiki er á.
Einnig er hægt að grafa upp rótina.
Hægt er að koma í veg fyrir að plantan dreifi sér með því að fjarlægja stöðugt blómsveipa með fræjum með því að draga poka varlega yfir blómsveipina með þroskuðu fræjunum og skera þá af. Þetta er gert ítrekað þar til engar nýjar plöntur koma upp. Eyðið blómsveipunum með fræjunum.
Hafið auga með svæðinu í nokkur ár.
Mikilvægt er að loka svæðinu að plöntunni til að koma í veg fyrir að fólk komist í snertingu við plöntuna.
Bjarnarkló þolir rask ekki vel þannig að í stórtækri upprætingeyðingu gæti fræsing eða herfing jarðvegs verið áhrifarík aðferð. Þá aðferð ætti að framkvæma snemma vors þegar plantan er lítil til að forðast skaða af völdum plöntusafa sem gæti þyrlast upp.
Önnur aðferð er að hylja jarðveginn þar sem vitað er af plöntunum með svörtum, sterkum dúk sem hleypir engu ljósi í gegnum sig. Þannig er hægt að svelta plöntuna þannig að hún nái ekki að ljóstillífa. Látið dúkinn liggja á jarðveginum í að minnsta kosti 2 ár.
Þegar plantan hefur verið grafin upp er gott að láta hana þorna í sólinni. Hægt er að höggva eða skipta plöntu í minni hluta til að auðvelda verkið. Gakktu úr skugga um að eyða öllum mögulegum fræjum. Þurrkaða plöntu án fræja er í lagi að nota í jarðgerð. Verið varkár þegar plöntuúrgangur og jarðvegur er meðhöndlaður þar sem þar geta verið fræ.
Setjið allar plöntuleifarnar í vel lokaða poka og komið þeim á sorpmóttökustöð til eyðingar. Athugið hvort að viðkomandi móttökustöð taki við bjarnarkló. Komið plöntuleifunum fyrir á stað sem er ætlaður fyrir framandi ágengar plöntur. Að öðrum kosti skal koma plöntuleifum fyrir á stöðum sem eru ætlaðir til eyðingar.
Athugið að það á ekki að meðhöndla plöntuleifar af bjarnarkló sem hefðbundinn plönguúrgang. Fræjum af bjarnarkló þarf að eyða.
Fjölmargar tegundir eru innan ættkvíslar risahvanna. Hérlendis mætti finna nokkrar tegundir sem svipar til Bjarnarklóar og eru þær: